Menntun Nýaldar

Markmið og aðferðir

Eyjólfur Pétur Hafstein

Greinin er byggð upp af tveimur hlutum; markmið og aðferð. Í fyrri hlutanum kynni ég markmið, þrjú undirstöðuatriði og sjö undirliggjandi áhrifaþætti menntunar. Síðari hlutinn er um aðferðir við þekkingaröflun og fjallar um yoga, tvöföldu starfsemi hugans (dulfræðilega hugleiðingu) og þjónustu (dulfræðilega sköpun).

Markmið

Markmið menntunar er tvíþætt. Í fyrsta lagi tenging sálar og persónuleika eða bygging vitundarbrúar milli sálar og persónuleika. Þetta atriði er það sem kalla má að lifa í núinu. Í öðru lagi að starfa sem sál. Þessi þáttur er framhald fyrra þáttarins og felur í sér að á meðvitaðan þátt að taka þátt í framtíðinni.

Þrjú undirstöðuatriði menntunar

Þrjú undirstöðuatriði eru kynnt sem grundvöllur menntunar. Þau eru: Yoga, tvöfalda starfsemi hugans (dulfræðileg hugleiðing) og þjónusta (dulfræðileg sköpun).

 

Yoga getum við kallað brúarsmíði hugans, því markmiðið er að byggja vitundarbrú, sem tengir sál og persónuleika nemans. Þegar brúarsmíðinni er lokið, þá er ekkert sem lengur hindrar stöðugt streymi vitundar eða varurðar frá hæstu hæðum inn í heila nemans. Þannig verður neminn meir og meir var við tilgang og markmið Guðs.

 

Tvöfalda starfsemi hugans (dulfræðileg hugleiðing). Rétt dulfræðileg hugleiðing er meira tengt vísindum en trúarbrögðum. Tvöfalda starfsemi hugans er að hluta til þáttur úr yoga og þar af leiðandi er einnig um brúarsmíði að ræða. Hugleiðing hefur þrenns konar hlutverk: Að skapa næmni fyrir áhrifum frá æðri sviðum, að framkalla stöðugt streymi vitundar eða varurðar og að þjálfa nemann í undirstöðuatriðum þjónustu (dulfræðilegrar sköpunar) með því að framkalla í huganum myndir eða myndræna atburðarás.

 

Þjónusta (dulfræðileg sköpun) er eðlilegt framhald yoga og tvöföldu starfsemi hugans. Eftir því sem líður á brúarsmíðina milli sálar og persónuleika og þekking á áætlun Guðs streymir inn í vitund nemans, eykst geta hans til þjónustu. Sameining sálar og persónuleika kemur af stað ákveðinni röð atburða eða starfsemi hjá nemanum á jarðsviðinu. Þessi starfsemi er ávallt í samræmi við áform og markmið Guðs og gengur undir nafninu þjónusta.

Sjö undirliggjandi áhrifaþættir

Megininntak menntunar á Nýöld á að vera þjálfun nemans í að bregðast við lífi og tilveru sálarinnar. Á hinn bóginn á kennslan að taka mið af tegund persónuleikans. Þróun sálarvitundar og þekking á starfsháttum sálarinnar í lífi persónuleikans, þarf að vera markmið allrar menntunar.

 

Í þessum kafla kynni ég þá þætti sálarinnar sem hún notar á jarðsviðinu og tjáir gegnum persónuleika sinn. Þættirnir eru sjö talsins, þrír eðlisþættir og fjórir eiginleikaþættir. Þeir samsvara einkennum geislanna sjö. Eðlisþættirnir þrír eru: Vilji eða tilgangur, Kærleikur/viska og Virkir vitsmunir (geislar 1, 2 og 3). Eiginleikaþættirnir fjórir eru:  Samræmi skapað gegnum upplausn, Hluthæf þekking, Trúarhollusta, og Skipulag (geislar 4, 5, 6 og 7).

 

Eðlisþátturinn vilji eða tilgangur (geisli 1): Þennan eðlisþátt þarf að þróa hjá nemanum að því marki að persónuleikinn tjái meðvitaðan andlegan tilgang og að öll starfsemi nemans stefni að innri raunveruleikanum. Öll kennsla varðandi þennan þátt þarf að beinast að því að stýra vilja nemans í rétta átt. Þeir hlutar viljaþáttarins sem leggja ber áherslu á eru; viljinn til góðs, viljinn til fegurðar og viljinn til þjónustu.

 

Viljinn til góðs fellst í því að sjá samhengið í sköpunarverkinu og gera sér grein fyrir því að allt líf er hluti stærri lífheildar. Þegar þessu vitundarástandi er náð, rís skilningur og samúð með samferðamönnunum og þeim erfiðleikum sem þeir mæta á vegi þróunarinnar. Eðlileg afleiðing þessa breytta hugarfars skapar meinleysi, góðvilja og rétt mannleg samskipti.

 

Viljinn til fegurðar er á einn eða annan hátt afleiðing viljans til góðs. Maðurinn upplifir fegurð sköpunarverksins í réttu samhengi og sem eina heild, það er, sem efnisbirtingu þess lífskrafts sem við öll erum hluti af. Okkur verður ljóst að formin sem skynfæri okkar skynja eru tilraunir lífsins til tjáningar á eðli sínu og sköpunarkröftum, takmörkuð í tíma og rúmi og forgengileg þrátt fyrir ytri fegurð sína. Eitt formið tekur við af öðru, en lífið varir. Viljinn til fegurðar gerir það að verkum að lífið sækist eftir meiri og meiri fullkomnun og fegurð í tjáningu sinni.

 

Viljinn til góðs og fegurðar er undirstaða viljans til þjónustu. Þegar maðurinn gerir sér grein fyrir stöðu sinni og skyldum innan heildarinnar ásamt sköpunarkröftum sínum og beitingu þeirra, vaknar viljinn til þjónustu fyrir alvöru. Drifkrafturinn í lífi nemans er skyldur hans gagnvart lífinu sem hann er hluti af og þeim verkefnum sem honum er úthlutað. Neminn verður með öðrum orðum hluti þeirrar áætlunar sem honum hefur verið fólgin til framkvæmdar. Vegurinn sem hann var svo upptekinn af að fylgja í þróun sinni er ekki lengur til sem slíkur. Neminn sjálfur er vegurinn.

 

Eðlisþátturinn kærleikur – viska (geisli 2): Kærleikurinn leiðir okkur inn í vitund heildarinnar. Þessa vitund nefnum við hópvitund. Fyrsta skrefið í kennslu um þennan þátt er ræktun kærleiks á sjálfinu (sjálfsvitund), síðan fylgir kærleikur til þeirra í kringum okkur (hópvitund) og að lokum kærleikur til heildarinnar (guðsvitund). Nemandanum er kennt að sjálfsvitund er aðeins hluti af stærri vitund. Þessi þróun er kærleikur og hann leiðir til visku, sem aftur á móti er kærleikur í verki. Sjálfsvitundin er vitundin um manninn sem einstakling og er í grundvallaratriðum einangrandi og neikvæð. Kærleikurinn er vegur vitundarinnar frá einangrun til frelsis, frá því að umlykja sjálfið þar til að hann umlykur allt.

 

Þegar neminn nær því marki að vera eitt með sálarhópi sínum, hefur vitund hans sameinast hópvitundinni og hann tekur vitandi vits þátt í starfsemi hópsins. Þessa starfsemi nefnum við þjónustu og við framkvæmd hennar er beitt visku, það er kærleikur í verki. Þjónusta er aðferð sem beitt er til víkkunar vitundar.

 

Eðlisþátturinn virkir vitsmunir (geisli 3): Þessi eðlisþáttur hefur að gera með þróun á sköpunarkröftum hins meðvitaða andlega manns og gerist með réttri notkun hugans. Þetta er aðferð sálarinnar við sköpun og stigin eru: 1. Sálin skapar jarðlíkamann. 2. Sálin, takmörkuð af jarðlíkama sínum, skapar í tíma og rúmi og í samræmi við þrár sínar. Þannig verður efnisbundni veruleikinn til og menning okkar. 3. Sálin skapar, með lægri hugann sem verkfæri, heim táknanna og fyllir þannig líf okkar af áhuga, hugtökum, hugmyndum og fegurð. Þessa þætti tjáir hún í tal- og ritmáli og á formi listarinnar.

 

Öll kennsla varðandi þennan eðlisþátt er um eðli hugmynda, hvernig þær birtast og hvernig þeim er komið á framfæri, auk þekkingar á þeim lögmálum sem stjórna eiga allri skapandi starfsemi.

 

Eiginleikaþátturinn samræmi skapað gegnum upplausn (geisli 4): Þessi eiginleikaþáttur leiðir til lausnar mannsins og til birtingar sköpunarkrafta hans. Hann er dulinn í öllum formum og er það undirliggjandi afl sem orsakar óróleika og óánægju hjá manninum og fær hann til þess að berjast áfram og þróast þar til að lokum að hann sameinast sál sinni og verður eitt með henni. Þetta er vitund samræmis og fegurðar sem leiðir manninn áfram braut þróunarinnar aftur til uppsprettunnar.

 

Við kennslu ber að leggja áherslu á þetta undirliggjandi afl sem orsakar óróleika og óánægju og túlka það þannig fyrir nemanum að hann geri sér grein fyrir þessum áhrifavaldi og vinni úr honum á viturlegan hátt.

 

Eiginleikaþátturinn hluthæf þekking (geisli 5):  Gegnum þennan eiginleikaþátt á maðurinn að vera fær um að afmarka hugtök sín og á þann hátt að mynda hugarform sem hann notar til þess að raunbirta áform sín og gera hugmyndir sínar að veruleika. Þetta starf framkvæmir maðurinn með aðstoð lægri hluthæfa hugans.

 

Öll kennsla varðandi þennan eiginleikaþátt ætti að stefna að því að þjálfa úrvinnsluhæfileika nemans og næmni hans til þess að skynja áform Guðs, þannig að hann geti byggt í samræmi við vilja sálar sinnar og raunbirt þann hluta áformsins sem er hans framlag til heildarinnar.

 

Eiginleikaþátturinn trúarhollusta (geisli 6):  Trúarhollusta er ávöxtur óánægju ásamt möguleikanum um val. Allt eftir því hve óánægja mannsins er mikil ásamt hæfileika hans að sjá hlutina í réttu ljósi, gengur hann í gegn um mörg tímabil tímabundinnar fullnægju. Sérhvert þessara tímabila sýnir hann trúarhollustu til löngunar, til persónu, til hugsjónar, til áforms, þangað til hann að lokum samsamar sig þeirri hugsjón sem er sú hæsta mögulega fyrir manninn. Þessi hugsjón er fyrst og fremst sálin og síðan heildarsálin eða Guð.

 

Öll kennsla varðandi þennan eiginleikaþátt er því fólgin í því að leiða nemann stig af stigi, frá einu markmiðinu til annars og að lokum í faðm sálar sinnar.

 

Eiginleikaþátturinn skipulag (geisli 7):  Þessi eiginleikaþáttur felur í sér ákveðið skipulag og fær þannig manninn til þess að starfa undir einbeittum vilja, ákveðnum tilgangi og formvenjum. Undir áhrifum frá þessum þætti lærir maðurinn að beita sér á ákveðinn hátt við þjónustustörf sín.

 

Kennsla og þjálfun varðandi þennan eiginleikaþátt þarf að miðast við að gefa nemanum möguleika á að þroska viljann, vitsmuni, ákveðni og tæknina að starfa sem sál. Á þennan hátt er lagður grundvöllur fyrir þróun sálarkrafta nemans og sú þróun leiðir til fyllri og fyllri birtingu þeirra krafta.

Aðferð

Aðferðahlutanum er skipt upp í þrjá kafla. Fyrsti kaflinn fjallar um innihald þess námsefnis sem heyrir undir yoga. Annar kaflinn tekur fyrir námsefni sem tengist tvöföldu starfsemi hugans (dulfræðilegri hugleiðingu). Þriðji kaflinn fjallar um innihald námsefnis sem tilheyrir þjónustu (dulfræðilegri sköpun).

Yoga

Í þessum kafla eru kynntar fjórar grunnstaðhæfingar sem eru grundvallandi fyrir aðferð yoga. Þær eru bæði þekkingafræðilegs eðlis og einnig felst í þeim ákveðin aðferð til þjálfunar nemans. Grunnstaðhæfingarnar eru: Sálin sem skaparinn. Dharma, skylda mannsins. Tilfinningalíkaminn og hreinsun hans. Huglíkaminn og vinnan með hugsanirnar.

 

Sálin sem skaparinn: Í þessum þætti gerum við grein fyrir manninum og uppbyggingu hans í eðlisheildir. Á sama tíma er tekið fyrir hlutverk hverrar eðlisheildar og samspilinu milli heildanna. Aðaláherslan er þó lögð á samspilið milli persónuleikans og skapara hans sálarinnar, vegna þess að með þeim hætti náum við að hluta til fyrri hluta markmiðs kenningarinnar. Sálartraust er mikilvægur hluti samspilsins milli sálar og persónuleika og er einnig lögð nokkur áhersla á þetta atriði.

 

Dharma, skylda mannsins: Dharma er lífsskyldukenning og hefur best verið lýst með orðunum „Ger þú skyldu þína án þess að bera kvíðboga fyrir afleiðingunum. Dharma sérhvers manns er skylda hans í einni ákveðinni jarðvist og er sú braut sem er lögð áður en hann fæðist á jörðinni. Henni verður ekki breytt eftir fæðingu jarðlíkamans og frjáls vilji persónuleikans hefur engin áhrif á hana þessa tilteknu jarðvist. Persónuleikinn er verkfæri sálarinnar í hverri jarðvist og mótar hún hann eftir eðli og tilgangi hverrar jarðvistar. Hann er gerður úr þremur lögum eða líkömum; huglíkama, tilfinningalíkama og efnisþéttum jarðlíkama, sem að hluta til er orkulíkami.

 

Tilfinningalíkaminn og hreinsun hans: Tilfinningalíkaminn er bústaður þráa okkar og langana. Tilgangurinn er sá að þjálfa hann og hreinsa þannig að hann að lokum endurspegli aðeins kærleikstilfinningar. Skrefin sem feta ber við hreinsun hans eru: Meinleysi – Góðvilji – Kærleikur. Frjáls vilji mannsins er til staðar á tilfinningasviðinu. Sé honum illa beitt er hann skapari karma, en jafnframt er hann lausnari úr klöfum orsaka og afleiðinga sé honum beitt á réttan hátt. Þjálfun og hreinsun geðlíkamans felst í því að gera sér grein fyrir uppbyggingu og straumum tilfinninganna og þar á eftir að beina þeim í réttan farveg.

 

Huglíkaminn og hugsanirnar: Huglíkaminn (lægri hugurinn) er bústaður hugsana okkar. Á sama hátt og með tilfinningalíkamann er tilgangurinn að þjálfa hann og efla þar til að lokum að hann fullkomlega endurspegli markmið og tilgang sálarinnar. Frjáls vilji mannsins er einnig til staðar á hugarsviðinu og er markmiðið að ná þannig stjórn á hugsunum okkar að þær leysi okkur úr klöfum karma. Einnig hér þurfum við að gera okkur grein fyrir uppsprettu og straumum innihalds hugans og eftir það að beina hugsunum okkar í réttan farveg.

Tvöfalda starfsemi hugans (dulfræðileg hugleiðing)

Tvöfalda starfsemi hugans er eins og áður er sagt, að hluta til yoga og er áherslan lögð á samtengingu sálar og persónuleika. Á sama tíma er tvöfalda starfsemi hugans beinn tengiliður yfir í þjónustu, á þann hátt að með hugleiðingu þjálfum við hugann og þá hugarstarfsemi sem er nauðsynleg undirstaða dulfræðilegrar sköpunar. Þess vegna eru grundvallaratriði allrar dulfræðilegrar hugleiðingar tvíþætt. Í fyrsta lagi tenging sálar og persónuleika og í öðru lagi myndun hugarforma í samræmi við áformið sem persónuleikanum er birt af sálinni.

 

Tenging sálar og persónuleika: Í kaflanum um yoga, voru fjórar grunnstaðhæfingar kynntar. Staðhæfingarnar eru undirstaða tengingarinnar sál – persónuleiki. Tvöfalda starfsemi hugans felst meðal annars í því að spyrða saman grunnstaðhæfingarnar fjórar í ákveðið hugleiðingarferli á myndrænu formi. Sameininguna sjáum við sem þríhyrning. Í topphorni hans er sálin, sem skapari persónuleikans og táknar það trúnaðartraust sem rækta þarf milli sálar og persónuleika. Í miðju þríhyrningsins er dharma mannsins, eða sú skylda sem rækja þarf þessa tilteknu jarðvist. Í vinstra horni þríhyrningsins er hjarta, sem táknrænt er fyrir tilfinningalíkamann þegar stefnt er að kærleikanum. Í hægra horni þríhyrningsins er hugur, sem stendur fyrir lægri huglíkamann og táknar þann frið sem hugurinn þarf að mynda.

Þetta myndræna form þurfum við að sjá fyrir okkur í huganum sem samtengingu sálar og persónuleika.

 

Myndun hugarforma og tvöfalda starfsemi hugans: Þegar áköll og áhrifaorð (t.d. helga orðið OM) eru notuð í hugleiðingu samfara hugarformum (sbr. myndræna formið að ofan) eða myndrænni atburðarás, tölum við um tvöföldu starfsemi hugans. Dæmi um þessa tvöföldu starfsemi hugans finnum við í Ákalli aganemans. Þá er myndræna forminu að ofan haldið stöðugu í huganum samtímis sem eftirfarandi texti ákallsins er hafður eftir.

 

            Ákall aganemans

 

            Vegurinn sem fætur mínir feta er lagður.

            Ég varðveiti frið í huga og kærleik í hjarta,

            því ég er sál sem svíf á vængjum til hæða.

 

Tvöfalda starfsemi hugans er fullkomin aðferð dulfræðilegrar hugleiðingar og þegar þar við bætist að neminn þekkir orðið áform sitt til framþróunar mannkyns, þá er hann tilbúinn til þess að taka þátt í dulfræðilegri sköpun og fullkominni mannkynsþjónustu.

Þjónusta (dulfræðileg sköpun)

Eins og áður hefur verið minnst á, þá eru þjónusta eðlilegt framhald yoga og tvöföldu starfsemi hugans. Kynning á þjónustu er tileinkuð öllum þeim nemum sem tilbúnir eru til þjónustustarfa í samræmi við áform Guðs. Þeir námsþættir sem fjallað verður um og jafnframt eru grundvallandi fyrir þjónustu eru: Sköpunarferlið. Stærðfræði – um talnakerfin. Litafræði. Tónfræði – grundvallaratriði. Samtenging tóna, ljóslita og talna. Öndunartækni. Framkvæmd dulfræðilegrar sköpunar – ábyrgð og afleiðingar.

 

Sköpunarferlið: Sjálft sköpunarferlið er aðferð þjónustu. Undir þessum lið eru allar hliðar sköpunarferlisins kynntar og þeir þættir sem taka verður tillit til. Hér er átt við undirbúning, framkvæmd og eftirleik dulfræðilegrar sköpunar.

 

Stærðfræði – um talnakerfin: Þessi liður tekur sérstaklega fyrir stærðfræði sjöundakerfisins, en auk þess er þó almennt farið inn á önnur talnakerfi og innbyrðis stöðu þeirra.

 

Litafræði – ljóslitir og efnislitir: Hér förum við inn á litafræði ljóssins, greiningu á ljóslitum, bylgjulengdir mm. Einnig er farið inn á efnisliti og mismun efnis- og ljóslita.

 

Tónfræði – grundvallaratriði: Lagt er áherslu á undirstöðuatriði tónfræðinnar og tónstiginn þjálfaður.

 

Samtenging tóna, ljóslita og talna: Hér er áherslan lögð á æfingar við að tengja: Tölur og ljósliti, tölur og tóna, tóna og ljósliti og tölur, ljósliti og tóna.

 

Öndunartækni: Hér er áherslan lögð á að kynna og þjálfa rétta öndun við dulfræðilega sköpun.

 

Framkvæmd dulfræðilegrar sköpunar – ábyrgð og afleiðingar: Hér er megináherslan lögð á að þjálfa dulfræðilega sköpun. Allir þættir sköpunarferlisins verða ræddir og þjálfaðir.