Á réttri tíðni

- námskeið í dulfræði

Michelangelo

Eyjólfur Pétur Hafstein

Rit þetta er tileinkað hópnum mínum með þakklæti og kærleika.

Innihald

Kafli 1. Inngangur

 

Kafli 2: Vegurinn til Nirvana

2.1 Frelsun sakir sjálfsafneitunar

2.2 Brautin fetuð

2.3 Samsvaranir í Bhagavad Gita

2.4 Niðurlag

 

Kafli 3: Trúðu á tvennt í heimi

3.1 Kærleiksyoga, Bhagavad Gita, kviða XII

3.2 Niðurlag

 

Kafli 4: Dulfræðileg sköpun – vegur viðurkennds aganema

4.1 Hvað er dulfræðileg sköpun?

4.2 Hvernig fer dulfræðileg sköpun fram?

4.3 Leyndardómur ómsins

4.4 Tölur og litir

4.5 Tónar og litir

4.6 Dæmi um dulfræðilega sköpun

4.7 Niðurlag

Kafli 1: Inngangur

Á réttri tíðni er kennsla mín í dulfræði og er henni skipt í þrjár hluta:

 

  • Yoga (samtenging persónuleika og sálar).
  • Dulfræðileg hugleiðing (tvöfalda starfsemi hugans).
  • Dulfræðileg sköpun (þjónusta).

Kafli 2 er námsefni yoga (samtengingu persónuleika og sálar). Markmiðið er að byggja vitundarbrú í huga nemans. Þegar brúarsmíðinni er lokið, þá er ekkert sem lengur hindrar stöðugt streymi vitundar eða varurðar frá hæstu hæðum inn í heila nemans. Þannig verður maðurinn meir og meir var við markmið og tilgang Guðs.

 

Kafli 3 er námsefni dulfræðilegrar hugleiðingar (tvöföldu starfsemi hugans). Dulfræðileg hugleiðing hefur þrenns konar hlutverk: Að skapa næmni fyrir áhrifum frá æðri sviðum. Að framkalla stöðugt streymi vitundar eða varurðar. Að þjálfa nemann í undirstöðuatriðum dulfræðilegrar sköpunar (þjónustu) með því að framkalla í huganum myndir eða myndræna atburðarás.

 

Kafli 4 er kennsluefni dulfræðilegrar sköpunar (þjónustu). Þjónusta eru eðlilegt framhald hinna tveggja námsþáttanna. Eftir því sem líður á brúarsmíðina milli persónuleika og sálar og þekking á Áætlun Guðs streymir inn í vitund nemans, eykst geta hans til þjónustu. Sameining persónuleika og sálar kemur af stað ákveðinni röð atburða eða starfsemi hjá nemanum á jarðsviðinu. Þessi starfsemi er ávallt í samræmi við áform og markmið Guðs og gengur undir nafninu þjónusta. Dulfræðileg sköpun er aðferð þjónustu og er vísindaleg aðferð til áframhaldandi innri þróunar.

Kafli 2: Vegurinn til Nirvana

XV,5:  Þeir menn fara hvergi villir vega og komast alla leið að hinu eilífa takmarki, sem eru lausir við ofdramb og blekkingu, hafa brotið af sér alla fjötra, eru eitt með sál sinni, hafa stökkt öllum girndum á flótta og eru ekki háðir andstæðum þeim sem heita sorg og gleði.

 

XV,6:  Þar ljómar enginn röðull; þar lýsir enginn máni og þar brenna engir eldar. Þeir menn er þangað komast, hverfa aldrei aftur. Þar er hinn dýrðlegi dvalarstaður minn.[1]

 

Í þessu greinarkorni vil ég leitast við að varpa ljósi á leiðina sem liggur fyrir hverjum manni að feta – Veginn til Nirvana. Á snilldarlegan hátt er þessari þekkingu gerð skil í helgiritinu Bhagavad Gita, sem ég nota sem undirstöðu þessarar kynningar. Túlkun mín á einnig annan grundvöll, þó uppistaðan sé hin sama. Þetta er sú þekking sem hverjum og einum nema er látin í té þegar ákveðnum áfanga er náð og aðaláherslan er lögð á að vinna af sér karmaskuldir á sem áhrifaríkastan hátt. Þessari þekkingu hef ég áður komið á framfæri. [2] Sá hluti Bhagavad Gita sem ég tek fyrir og vitna í er lokakviðan um frelsun sakir sjálfsafneitunar og er þar birt heildarniðurstaða ljóðabálksins.

2.1. Frelsun sakir sjálfsafneitunar

XVIII,49:  Sá maður öðlast hið æðsta frelsi fyrir verk sín og sakir sjálfsafneitunar, er þráir ekkert, stjórnar sjálfum sér og hefur stökkt á brott öllum girndum.

 

XVIII,50:  Ég vil nú segja þér, Arjuna! í fáum orðum, hvernig sá maður er, sem er þegar orðinn fullkominn. Hann kemst til hins Eilífa, sem er hið hinsta takmark þekkingar.

 

XVIII,51:  Hann hefur hreinsað huga sinn og fengið með þolgæði stjórn á sjálfum sér. Hann hefur  snúið baki við hljóðum og öðrum skynjunum skynfæranna og er horfinn frá ástríðu og illsku.

 

XVIII,52:  Hann hefst við þar sem afskekkt er og er sparneytinn, hefur hann taumhald á tungu sinni, líkama sínum og huga. Iðkar hann þar yoga og er gæddur stillingu.

 

XVIII,53:  Hann er laus við alla sjálfselsku, ástríðumagn, ofsa, girndir, fjandskap og ætlar að sér beri ekkert. Hann hefur þá þegar öðlast hugarró og fær sameinast hinum Eilífa.

 

XVIII,54:  Er hann hefur sameinast hinum eilífa er hann rór í anda. Þráir hann ekkert, harmar ekkert og er öllum verum eins. Þá fær hann og fullkomna elsku á mér.

 

XVIII,55:  Hann þekkir mig þá, kemst að raun um hvað ég megna og hver ég er, af því að hann elskar mig. Hann sameinast innsta eðli mínu, er hann hefur öðlast fullkomna þekkingu á mér.

 

XVIII,56:  Ég læt hann sakir náðar minnar dvelja í hinum eilífu heimkynnum, er aldrei hrörna. Hann er og þar, þótt hann hafi sífellt störf með höndum, af því að hann leitar athvarfs hjá mér.

 

XVIII,57:  Vinn þú mér sérhvert verk sem þú vinnur. Lít þú svo á að ég sé hinn hæsti. Treystu á innsæi þitt og hafðu mig sífellt í huga.

 

XVIII,58:  Þú skalt og sigrast á erfiðleikum öllum sökum náðar minnar, ef þú hugsar sífellt um mig. En ef þú hlýðnast ekki orðum mínum sakir sjálfselsku þinnar, muntu glatast.

 

XVIII,59:  Sértu vélaður sérhlífni og hugsir á þessa leið: „Ég vil ekki berjast”, þá kemur það áform þér að engu haldi. Eðli þitt knýr þig út í stríð.

 

XVIII,60:  Þú ert bundinn þeirri skyldu, er eðli þitt hefur af sér fætt. Það sem þú vilt ekki vinna sökum fávisku þinnar, verður þú að gera, hvort sem þér fellur það ljúft eða leitt.

 

XVIII,61:  Drottinn sjálfur dvelur í hjarta sérhverrar veru. Ginning hans, Arjuna! lætur allar verur vera í sífelldri hringrás, á hverfanda hveli.

 

XVIII,62:  Flý þú til hans, Arjuna! Hann mun vegna náðar sinnar, veita þér friðinn heilaga, dvalarstaðinn eilífa.

 

XVIII,63:  Ég hef nú þegar kennt þér þessa speki sem er leyndari en allt sem leynt er. Þú skalt nú hugsa um hana og gera síðan það sem þér þykir gott.

 

XVIII,64:  Heyr þú aftur hið heilaga orð mitt, er hefur í sér fólginn æðsta leyndardóminn. Þú ert mér hjartkær. Fyrir því vil ég fræða þig um það, sem getur orðið þér til hjálpar.

 

XVIII,65:  Hugsaðu ríkt um mig. Elska þú mig. Tigna þú mig og hylltu mig. Þú skalt og koma til mín. Sannanlega segi ég þér: Þú ert mér hjartkær.

 

XVIII,66:  Yfirgef allt. Leita þú mín, sem hins eina athvarfs. Kvíð þú engu, ég mun leysa þig undan öllu illu.

 

XVIII,67:  Þú skalt þó ekki kenna þetta nokkrum manni, sem agar ekki sjálfan sig, elskar ekki né þjónar og ekki heldur þeim er mæla lastyrði gegn mér.

 

XVIII,68:  En sá maður sem kennir þennan háleita leyndardóm þeim er elska mig, ber hina fullkomnu elsku til mín. Hann kemur sannanlega til mín.

 

XVIII,69:  Enginn maður veitir þóknanlegri þjónustu en hann. Og enginn á jörðu verður mér honum hjartkærari.

 

XVIII,70:  Og hver sá maður mun færa mér viskufórnir er les þessa heilögu samræðu okkar með athygli. Sú er skoðun mín.

 

XVIII,71:  Og sá maður er hlýðir á hana með einlægum trúarhug og án illúðar, jafnvel hann, mun á lausnarstund sinni komast í sæluheima réttlátra.

 

XVIII,72:  Hefur þú Arjuna! hlýtt á allt þetta með heilum og óskiptum huga? Og er nú villa þín er fáviskan olli, Arjuna! frá þér horfin?

 

                        Þá mælti Arjuna:

 

XVIII,73:  Villan er vikin frá mér. Þú Krisna! hefur augsýnt mér náð, svo ég hef getað áttað mig. Ég er nú þegar einráðinn í því hvað gera skal. Efinn er horfinn. Ég mun fara að ráðum þínum.

2.2. Brautin fetuð

Túlkun mín á brautinni til fullkomnunar er sett fram sem fjórar grunnstaðhæfingar. Að þekkja þær og samtímis að hafa þær að leiðarljósi í lífinu, er það sama og að feta veginn til Nirvana. Grunnstaðhæfingarnar eru: Dharma, skylda mannsins. Sálin sem skaparinn. Tilfinningalíkaminn og hreinsun hans. Huglíkaminn og vinnan með hugsanirnar.

 

Dharma, skylda mannsins: Dharma er lífsskyldukenning og hefur best verið lýst í orðunum: „Ger þú skyldu þína án þess að bera kvíðboga fyrir afleiðingunum“. Dharma sérhvers manns er skylda hans í einni ákveðinni jarðvist og er sú braut sem lögð er áður en hann fæðist á jörðinni. Henni verður ekki breytt eftir fæðingu og frjáls vilji persónuleikans hefur engin áhrif á hana þessa tilteknu jarðvist. Persónuleikinn er þrískipt verkfæri sálarinnar í hverri jarðvist og mótar hún hann eftir eðli og tilgangi hverrar jarðvistar. Hann skiptist í huglíkama, geðlíkama og jarðlíkama, sem að hluta til er orkulíkami.

 

Sálin sem skaparinn: Þegar persónuleikinn gerir sér grein fyrir skapara sínum, sálinni, og hlutverki sínu sem verkfæri hennar í heimunum þrem, gerir hann allt sem í hans valdi stendur til þess að taka hlutverk sitt alvarlega. Hann ákveður að lúta skapara sínum. Þessi undirgefni er það ástand að hverfa inn á við til uppsprettunnar. Það er oft auðveldara að gera sem Austurlandabúinn að hverfa til Guðs í sjálfum sér – til sálarinnar – heldur en aðferð Vesturlandabúans að hverfa til Guðs í alheimsgeimi – andans – þótt hvoru tveggja sé rétt leið. [3] Ef við lítum nánar á manninn sem eðlisheild, það er anda og efni (purusa og prakriti) þá skiptist hún í þrjá meginþætti; anda, sál og persónuleika.

 

Efsti meginþátturinn er andinn, eindin eða Faðirinn á himnum. Sanskrítarorðið purusa er einnig algengt. Purusa er í eðli sínu hreinn andi og samsett úr þremur þáttum eða eiginleikum; vilji (faðir), kærleikur/viska (sonur) og virkir vitsmunir/athafnaorka (heilagur andi).

 

Næsti meginþátturinn er sálin. Hún er efnisbundið fyrirbæri – sólarengill -, sem kallaður er til starfa til aðstoðar andanum við öflun þeirrar reynsluþekkingar sem hann verður að öðlast til þess að geta þróast inn í óravíddir óendanleikans. Sálin er á sama hátt og andinn saman sett úr þremur þáttum eða eiginleikum; vilji (atma), innsæi (buddhi (kærleikur/viska) ) og æðri hugurinn (hærri manas). Auðvelt er að hugsa sér sálina, á sama hátt og persónuleikann. Hún er í efnislíkama (orsakalíkaminn) og er heimili hans æðri hugurinn. Geðlíkami sálarinnar er innsæislíkaminn (buddhi) og huglíkami hennar er atma. Markmið útþróunarinnar er að fylla allar hirslur sálarinnar af reynsluþekkingu þannig að andinn geti „sogið“ þekkinguna til sín og þannig þróast áfram. Þetta og gerist. Þegar orsakalíkaminn er orðinn fullur reynsluþekkingar, stundum er talað um að Musteri Salómons sé fullreist, „sogar“ andinn þekkinguna til sín. Við það springur orsakalíkaminn og sólarengillinn, sem um aldur og eilífð séð með augum persónuleikans hefur fylgt yfirboðara sínum – andanum – og framkvæmt vilja hans, hverfur til síns heima. Eftir standa andinn og persónuleikinn, í formi fullkominnar reynsluþekkingar, það er að segja hinn fullkomni maður. Þetta vitundarástand, því vitundarástand er það, er nefnt Nirvana.

 

Lægsti meginþátturinn er persónuleikinn. Við höfum áður í greininni fjallað um samsetningu hans. Hann er verkfærið til þess að fiska upp reynsluþekkingu. Þegar allt er á botninn hvolft, þá má líkja mannsheildinni við útgerð. Andinn er útgerðarfyrirtækið sem setur sér ákveðið markmið. Sálin er báturinn sem notaður er við veiðarnar og persónuleikinn er veiðiferðin. Reynsluþekkingin er sá afli sem kemur úr hverri veiðiferð, stundum góður, stundum rýr. Af þessu dæmi má sjá að eðlisheild mannsins er öll jafn mikilvæg; andinn, sálin og persónuleikinn. Ekkert má vanta, allt skiptir jafn miklu máli fyrir framvinduna.

 

Tilfinningalíkaminn og hreinsun hans: Tilfinningalíkaminn er bústaður þráa okkar og langana. Tilgangurinn er sá að þjálfa hann og hreinsa þannig að hann að lokum endurspegli aðeins kærleikstilfinningar. Skrefin sem feta ber við hreinsun hans eru: Meinleysi – Góðvilji – Kærleikur. Frjáls vilji mannsins er til staðar á tilfinningasviðinu. Sé honum illa beitt er hann skapari karma, en jafnframt er hann lausnari úr klöfum orsaka og afleiðinga sé honum beitt á réttan hátt. Þjálfun og hreinsun geðlíkamans felst í því að gera sér grein fyrir uppsprettu og straumum tilfinninganna og þar á eftir að beina þeim í réttan farveg.

 

Uppspretta tilfinninga okkar er tvíþætt; 1) Tilfinningaskapandi áhrif og 2) Sjálfskapaðar tilfinningar. Þau áhrif sem tilheyra fyrra hópnum myndast utan tilfinningalíkamans og berast honum með ýmsu móti. Þau eiga ferns konar uppruna. 1a) Sálarsviðið, en þar myndast tilfinningaskapandi áhrif sem stjórna dharma okkar. Þaðan koma einnig áhrif sem framkalla kærleikstilfinningar. 1b) Hugarsviðið (lægri hugurinn). Þar verða til tilfinningaskapandi áhrif sem ávallt eru til staðar áður en þriðju dulvígslu er náð. 1c) Jarðsviðið eða þau áhrif sem við skynjum með skynfærum jarðlíkamans. 1d) Utanaðkomandi hugsanagervi. Hér er um að ræða hugsanaform klæddu geðrænu efni. Þau hafa skapast af sjálfum okkur og samferðamönnum okkar gegnum aldirnar og ganga undir nafninu „Blekkingin mikla“.

 

Sjálfskapaðar tilfinningar eru tilfinningar sem myndast innan tilfinningalíkamans vegna utanaðkomandi áhrifa. Þessar tilfinningar flokkum við á þrennan hátt. 2a) Karmaskapandi, tilfinningar sem ekki eru í samræmi við dharma okkar. 2b) Hlutlausar tilfinningar sem eru í samræmi við dharma okkar. 2c) Karma leysandi tilfinningar sem eru í samræmi við dharma okkar, með þjónustu við heildina að leiðarljósi.

 

Huglíkaminn og hugsanirnar: Huglíkaminn (lægri hugurinn) er bústaður hugsana okkar. Á sama hátt og með tilfinningalíkamann er tilgangurinn að þjálfa hann og efla þar til að lokum að hann fullkomlega endurspeglar markmið og tilgang sálarinnar. Frjáls vilji mannsins er einnig til staðar á hugarsviðinu og er markmiðið að ná þannig stjórn á hugsunum okkar að þær leysi okkur úr klöfum karma. Einnig hér þurfum við að gera okkur grein fyrir uppsprettu og straumum innihalds hugans og eftir það að beina hugsunum okkar í réttan farveg.

 

Á sama hátt og með tilfinningarnar, þá hafa hugsanir okkar tvær uppsprettur. Þær eru: 1) Hugsanaskapandi áhrif og 2) Sjálfskapaðar hugsanir. Áhrifin sem um er að ræða, eiga upptök sín utan lægri huglíkamans og berast honum á mismunandi hátt. Þau eiga ferns konar uppruna. 1a) Sálarsviðið. Þetta eru áhrif sálarinnar á lægri hugann. Öll innri kennsla, innsæishugmyndir og stjórnun sálarinnar á persónuleikanum (dharma okkar) koma frá þessum hópi áhrifa. 1b) Tilfinningasviðið. Þar myndast hugsanaskapandi áhrif sem ávallt eru til staðar þar til annarri dulvígslu er náð. 1c) Jarðsviðið eða þau áhrif sem við skynjum með skynfærum jarðlíkamans. 1d) Utanaðkomandi hugsanagervi. Þetta eru þau hugsanagervi sem lægri hugurinn tekur inn á sig frá umhverfinu. Þetta eru hugsanaform samferðamanna okkar og einnig eigin hugsanaform sem við höfum áður myndað og eru á sveimi allt í kring um okkur (Blekkingin mikla).

 

Sjálfskapaðar hugsanir eru þær hugsanir sem rætur eiga að rekja til lægri hugans og myndast vegna utanaðkomandi hugsanaskapandi áhrifa. Þær flokkast á þrennan hátt. 2a) Karmaskapandi hugsanir sem ekki eru í samræmi við dharma okkar. 2b) Hlutlausar hugsanir sem eru í samræmi við dharma okkar. 2c) Karma leysandi hugsanir sem eru í samræmi við dharma okkar, með þjónustu við heildina að leiðarljósi. Hópur sjálfskapaðra hugsana er frjáls vilji okkar og er grundvallandi fyrir lögmál orsaka og afleiðinga.

 

Eins og áður sagði, er dharma okkar fyrir eina ákveðna jarðvist (til dæmis okkar núverandi) lagt áður en af stað er haldið niður á jarðsviðið. Þetta þýðir með öðrum orðum að ekki er um að ræða frjálsan vilja persónuleikans á jarðsviðinu. Til þess að fá samræmi í hugsun (og tilfinningar, því „efri“ þátturinn er ávallt ráðandi) mannsins við þá atburði sem raunverulega gerast á jarðsviðinu og ákveðnir eru og skapaðir af sálinni áður en lagt er af stað í jarðvist, er hugsanaformum frá sálarsviðinu varpað inn í huglíkamann (og tilfinningum inn í tilfinningalíkamann). Samræmið þarf að vera algert til þess að persónuleikinn virki sem ein heild.

 

Tökum dæmi til skýringar. Morð á samborgara: Í fyrsta lagi er atburðurinn ákveðinn á sálarplaninu áður en persónuleikinn er sendur í jarðvist. Í öðru lagi. Á réttu augnabliki sendir sálin strauma hugsana í huglíkamann (og tilfinninga í tilfinningalíkamann) þannig að samræmi verður í öllum persónuleikanum um verknaðinn. Við verðum að hafa það hugfast að öll reynsla í heimunum þrem verður að fást og að siðferði og siðferðishugmyndir eru sköpun mannsins og háð menningu og menningarsvæðum. Spurningin er ekki: Af hverju frömdum við morð?, heldur: Hvernig bregðumst við okkar eigin framkvæmd? Þetta er undirstaðan og jafnframt lykillinn að lögmáli karma.

2.3. Samsvaranir í Bhagavad Gita

Í þessum kafla ber ég grunnstaðhæfingarnar fjórar saman við nokkur vers úr átjándu kviðu. Tilgangurinn er sá að sýna fram á samræmið milli kenninga Bhagavad Gita og grunnstaðhæfinganna.

 

Um dharma, skyldu mannsins:

 

XVIII,59: Sértu vélaður sérhlífni og hugsir á þessa leið: „Ég vil ekki berjast“, þá kemur það áform þér að engu haldi. Eðli þitt knýr þig út í stríðið.

 

XVIII,60: Þú ert bundinn þeirri skyldu, er eðli þitt hefur af sér fætt. Það sem þú vilt ekki vinna sökum fávisku þinnar, verður þú að gera, hvort sem þér fellur það ljúft eða leitt.

 

Dharma sérhvers manns er lagt áður en fæðing persónuleikans (jarðlíkamans) á sér stað. Frjáls vilji mannsins hefur engin áhrif á gang mála á jarðsviðinu í þessari ákveðnu jarðvist.

 

Um sálarsamband:

 

XVIII,65: Hugsaðu ríkt um mig. Elska þú mig. Tigna þú mig og hylltu mig. Þú skalt og koma til mín. Sannanlega segi ég þér: Þú ert mér hjartkær.

 

XVIII,57: Vinn þú mér sérhvert verk sem þú vinnur. Lít þú svo á að ég sé hinn hæsti. Treystu á innsæi þitt og hafðu mig sífellt í huga.

 

Enginn grundvallarmunur er gerður á hvort horfið sé til Guðs í alheimsgeimi eða til Guðs í sjálfum þér. Hvoru tveggja er það sama. Í þessum versum er talað um algert samband sálar og persónuleika eða Guðs og manns, sem forsendu innri þróunar.

 

Um tilfinningalíkamann og hreinsun hans og huglíkamann og hugsanirnar:

 

XVIII,51: Hann hefur hreinsað huga sinn og fengið með þolgæði stjórn á sjálfum sér. Hann hefur snúið baki við hljóðum og öðrum skynjunum skynfæranna og er horfinn frá ástríðu og illsku.

 

XVIII,53: Hann er laus við alla sjálfselsku, ástríðumagn, ofsa, girndir, fjandskap og eignir og ætlar sér beri ekkert. Hann hefur þá þegar öðlast hugarró og fær sameinast hinum Eilífa.

 

Hreinsun tilfinninga- og huglíkamans er forsenda fyrir inngöngu í Nirvana. Frjáls vilji okkar, bæði í tilfinninga- og huglíkama er það afl sem nota ber í framþróunarátt.

2.4. Niðurlag

Sérhver maður er fetar braut heimhvarfsins stendur frammi fyrir þeirri áleitnu spurningu hvað hann geti gert til þess að sameinast guðdómnum og samtímis að verða að sem mestu gagni fyrir heildina. Það svar sem Bhagavad Gita gefur, er svar sérhverrar sálar til verkfæri síns persónuleikans: „Trúðu á mig og treystu, gerðu skyldu þína í lífinu og fetaðu brautina með réttar tilfinningar og hugsanir að leiðarljósi.“

Kafli 3: Trúðu á tvennt í heimi

                        Trúðu á tvennt í heimi,

                        Tign sem hæsta ber,

                        Guð í alheimsgeimi,

                        Guð í sjálfum þér. [4]

 

                        Arjuna mælti:

 

XII,1:  Hvorir eru ágætari yoga-iðkendur, þeir, er öðlast hafa hugarrósemi, elska þig og tigna, eða hinir, er sökkva sér niður í samhugun um hinn eilífa og óskynhæfa? [5]

 

Í þessari grein er markmiðið að varpa nokkru ljósi á tvær leiðir bhakti yogans til fullkomnunar. Önnur leiðin er leið Vesturlandabúans, það er trúin á Guð í alheimsgeimi, en hin er leið Austurlandabúans, það er trúin á Guð í sjálfum þér. Er Arjuna stendur frammi fyrir Krisna á bardagavellinum Kuruksetra, varpar hann fram þessari áleitnu spurningu: „Hvort er betra að trúa á Guð í alheimsgeimi, eða Guð í sjálfum mér?“ Hér stendur Krisna fyrir kærleiksþátt guðdómsins eða sál hvers og eins leitanda. Svar hans til Arjuna eða persónuleikans er tólfta kviða Bhagavad Gita – kærleikskviðan.

3.1. Kærleiksyoga, Bhagavad Gita, kviða XII

                        Þá mælti hinn dýrðlegi drottinn:

 

XII,2:  Ágætastir eru þeir iðkendur yoga að því ég hygg, er hafa allan huga á mér, sökkva sér niður í samhugun um mig, elska mig ávallt og eru gæddir óbifanlegu trúnaðartrausti.

 

XII,3-4:  Þeir menn koma og til mín, er halda skynjunum sínum í skefjum, eru ávallt samir og jafnir, hafa hug á hagsæld allra og tigna sífellt hinn óumbreytanlega, hinn óumræðilega, hinn óskynhæfa, hinn alnálæga, hinn órannsakanlega, hann, sem er samur og jafn að eilífu.

 

XII,5:  En menn þeir eiga við margfalt meiri erfiðleika að etja, er hugsa um hinn óskynhæfa. Hann er það takmark, sem mönnum, er lifa í jarðneskum líkömum, veitir erfitt að ná.

 

Hér hefur Krisna (sálin) svarað spurningu Arjuna (persónuleikans). Hvoru tveggja er rétt leið. Erfiðleikarnir eru þó meiri fyrir þann sem hugsar um Guð í alheimsgeimi (andann), en hann nær engu að síður takmarki sínu.

 

Til þess að gera sér nánari grein fyrir þessum atriðum, þarf örlitla skýringu. Mannsheildin samanstendur af þrem þáttum: Anda – sál – persónuleika. Andinn (purusa) er hinn óumbreytanlegi, hinn óskynhæfi, hinn alnálægi, hinn órannsakanlegi, hinn sami og jafni að eilífu. Hann er allt, en samt hluti úr öllu. Hann er hinn guðlegi faðir, en samt fruma í líkama hins guðlega föður. Hann er viljinn. Á ferðalagi andans – án upphafs og endaloka – kallar hann til samstarfs við sig sólarengilinn – sálina. Sólarengillinn er efnisbundið fyrirbæri er þjónar andanum um ákveðið tímabil. Þetta tímabil – ef svo klaufalega má að orði komast – er mannsheildin, það er það tímabil sem andinn þarf til þess að safna þeim eiginleikum er við nefnum „reynsluþekkingu“. Þetta er það tímabil, sem tekur andann að semja Guðlegu lífssinfóníuna. Fyrst frumtóninn, síðan stóru þríundina, þá fimmundina og að lokum er leiðsögutónninn fundinn og Guðlega sjöundin staðreynd. Persónuleikinn er aftur á móti það verkfæri sálarinnar, sem hún skapar í ómi hins helga orðs, til þess að fiska upp tóna í Guðlegu sinfóníuna. Einn tónn fyrir hverja jarðvist eða hvern persónuleika.

 

Það sem Krisna (sálin) meinar er einfalt: „Taktu aldrei nema eitt skref í einu“. Fyrst þarf persónuleikinn að trúa á sálina – næsta þrep fyrir ofan í stiganum – og sameinast henni. Sameiningin gerist í algeru trúnaðartrausti, undirgefni og vissu persónuleikans á æðra þætti sínum – sálinni. Sameining persónuleika og andans eða annars þrepsins í stiganum, gerist síðan fyrir atbeina sálarinnar þegar hún hefur kennt persónuleikanum „að ganga“. Þessi sameining hefst við þriðju dulvígslu og gerist á eðlilegan hátt með stuðningi og milligöngu sálarinnar. Við fjórðu dulvígslu hefur sálin lokið hlutverki sínu, það er bæði hefur hún náð í alla tóna Guðlegu lífssinfóníunnar og einnig hefur hún kennt persónuleikanum „að ganga“. Að þessu loknu hverfur sólarengillinn til síns heima og persónuleikinn, í formi hinnar fullkomnu reynsluþekkingar, svífur í faðm Föður síns á himnum – andans. Þar með er þessum þætti ferðalags andans lokið, fimmta dulvígslan er staðreynd og hann býr sig undir áframhaldandi ferð um óravíddir alheimsins.

 

XII,6-7: En ég mun von bráðar hefja þá menn upp úr höfum dauðans og endurholdgunar, er tigna mig, telja mig æðstan, sökkva sér niður í elskukennda íhugun um mig og hafa losað huga sinn úr læðingi athafna.

 

XII.8: Hafðu hugann fastan á mér og engum öðrum. Bein þú kærleika þínum og visku að mér, og þá munt þú ávallt lifa í mér.

 

Skapari persónuleikans – sálin – gefur honum fyrirmæli um hvernig honum beri að haga sér: „Vegna þess að ég skóp þig til ákveðinna verkefna og þú ert hluti af mér, munt þú ávallt lifa í mér ef þú sífellt hefur mig í huga og í hjarta. Þegar vissa þín og vilji eru orðin að mínum erum við sameinuð í eitt – eins og við raunverulega erum. Vandamál þitt er fjórþætt og þú þarft að gera þér grein fyrir því. Þessir fjórir þættir eru: Þú ert sál í holdgun og verður að stjórnast af þeirri vissu. Þú gegnir ákveðinni lífsskyldu sem ég gjörþekki og hef lagt í smáatriðum. Þetta er dharma þitt og er liður í söfnun á reynsluþekkingu fyrir Föður okkar á himnum. Sættu þig við skyldu þína og lifðu eftir henni. Ef þú sættir þig við dharma þitt, þá ríkir kærleikur í hjarta þínu og friður í huga þínum. Til þess að auðvelda þér þetta allt saman, vil ég kenna þér ákveðið ákall til mín. En það hljóðar svo:

 

            Vegurinn sem fætur mínir feta er lagður.

            Ég varðveiti frið í huga og kærleik í hjarta,

            því ég er sál sem svíf á vængjum til hæða.

 

Farðu oft með þetta ákall og ég mun ávallt standa þér við hlið. Þú manst þetta mun betur ef þú sérð þetta fyrir þér myndrænt:

Þannig erum við tvö eitt.“

 

XII,9: En, ef þú ert ekki fær um að hugsa sífellt um mig, þá iðka þú yoga Arjuna! og reyndu þannig að komast til mín.

 

XII,10: En, ef þú skyldir ekki heldur vera fær um það að iðka yoga, þá hafðu það sem þitt fremsta markmið að starfa, sem væri það mín vegna. Þannig öðlast þú fullkomnun.

 

XII,11: En, ef þú skyldir ekki vera jafnvel fær um þetta, þá leitaðu athvarfs í kærleiksríka starfsemi mína, hafnaðu árangri athafna þinna og hafðu vald á sjálfum þér.

 

XII,12: Þekking er iðkunum vissulega æðri. Íhugun er þó talin æðri þekkingu. En afsal ávaxta athafna er jafnvel íhugun æðra. Slíku afsali fylgir og þegar friður.

 

XII,13-14: Sá elskar mig og er mér hjartkær er ekki ber kala til nokkurrar veru, er ástúðlegur öllum og miskunnsamur, hefur ekki hugann fastan við jarðneska muni, er laus við alla eigingirni, er samur og jafn í sælu og kvöl, umber mótgerðir annarra manna, er ávallt glaður og léttur í lund, er hugrór, hefur stjórn á sjálfum sér, er einhuga og hefur helgað mér allan hug sinn, kærleika og visku.

 

XII,15: Hinn er mér og hjartkær er enginn maður óttast og óttast sjálfur engan og hefur varpað frá sér tilhlökkun, gremju, kvíða og ótta.

 

XII,16: Sá maður elskar mig og er mér hjartkær, er þráir engin gæði þessa heims, er hreinhjartaður, atorkusamur, ókvíðinn, áhyggjulaus og hefur hafnað árangri athafna sinna.

 

XII,17: Hann er mér og hjartkær, er hefur hvorki mætur né óbeit á hlutum og girnist ekkert, hirðir hvorki um meðlæti né mótlæti og er gagntekinn kærleika til mín.

 

XII,18:-19: Maður sá elskar mig og er mér hjartkær, er reynist eins vinum sem óvinum, er hinn sami, hvort sem hann á við sæmd eða svívirðu að búa, kulda eða hita, kvöl eða unað, er laus við öll bönd, tekur eins lofi sem lasti, er þögull, lætur sér lynda, hvað sem honum ber að höndum, hefur hvergi höfði að halla að og er stefnufastur.

 

XII,20: En ástfólgnastir eru mér þeir menn, er lifa eftir þessu lögmáli ódauðleikans, er ég hef þegar skýrt þér frá, og hafa trúnaðartraust og telja mig hinn æðsta.

3.2. Niðurlag

Eins og barnið sem lærir að ganga með því að taka eitt skref í einu, þannig er auðveldara fyrir bhakti yogann að snúa sér beint til skapara síns – sálarinnar – með tilbeiðslu sína og kærleik. Er bhakti yoginn lærir „að ganga“ fyrir atbeina sálarinnar, fylgir hún honum á fund Föðurins á himnum – andans, þar sem hann dvelur öllum stundum síðar.

Kafli 4: Dulfræðileg sköpun – vegur viðurkennds aganema

„Í upphaf var orðið og orðið var hjá Guði og orðið var Guð. Það sama var í upphafi hjá Guði. Allir hlutir voru gjörðir af því, og án þess varð ekkert til, sem til er orðið. Í því var líf, og lífið var ljós mannanna.“ [6]

 

Tilgangurinn með þessari grein er að varpa ljósi á hvernig dulfræðileg sköpun fer fram hjá viðurkenndum aganema.

4.1. Hvað er dulfræðileg sköpun?

Dulfræðileg sköpun persónuleikans á jarðsviðinu er svar hans við þeirri viðleitni sálarinnar og sálnahópsins að fá hann til samstarfs við ákveðið áform, sem lagt er áður en persónuleikinn verður til. Sköpunin er aðeins jáyrði persónuleikans við spurningu sálarinnar um samstarf. Dulfræðileg sköpun getur aldrei átt sér stað nema undir stjórn sálarinnar og á sálarplaninu. Jáyrði persónuleikans, það er sköpunarferlið, er samruni tveggja geisla til myndunar ákveðins tóns í ómi hins helga orðs.

4.2. Hvernig fer dulfræðileg sköpun fram?

Þegar sál manns hefur fetað það langt á braut heimhvarfsins að hægt er að nota hana sem verkfæri æðri máttarafla, er henni veitt innganga í nemahóp ákveðins fullnuma. Innganga í slíkan hóp veitir viss forréttindi, en einnig ákveðnar skyldur. Við inngöngu í hópinn gerist neminn, það sem nefnt hefur verið í dulfræðinni, viðurkenndur aganemi. Þær skyldur (agi) sem neminn gengst undir er þátttaka í störfum hópsins að þeim verkefnum sem hópurinn hefur með höndum. Þau forréttindi sem slíkum nema er veitt eru margskonar, þar á meðal dulfræðilegur sköpunarkraftur. Nemar hópsins eru sálir sem ýmist eru í holdgun eða utan holdgunar. Tenging hópsins gerist í vitund nemanna og vinnan fer aðallega fram á hugarsviðinu. Nemanum er veittur dulfræðilegur sköpunarkraftur aðeins í einum tilgangi og hann er sá að nota hann við framgang áætlunar hópsins.

 

Forsendur dulfræðilegrar sköpunar eru þær kröfur sem settar eru sem skilyrði fyrir inngöngu í nemahóp fullnumans. Auðvelt er að ímynda sér forsendurnar sem þríhyrning. Í topppunkti hans staðsetjum við sálina, í hægra horni hans hugann og í vinstra horninu hjarta.

            Mynd 4.1: Samband sálar og persónuleika.

 

Við getum einnig lyft okkur á hærra plan og séð sama þríhyrning þannig:

            Mynd 4.2: Ástand sálarinnar.

 

Þessi þríhyrningur lýsir ástandi sálarinnar og hinn, að ofan, tengingu sálar og persónuleika. Í fyrsta lagi verður sambandið milli sálar og persónuleika að vera orðið þannig að persónuleikinn geti hvenær sem er gengið úr skugga um vilja sálarinnar og skilyrðislaust hlýtt þeim boðum. Þetta hefur iðulega í för með sér þjáningar og einmanaleika fyrir persónuleikann. Þetta ástand hverfur þó fljótlega þegar neminn gerir sér grein fyrir því að hann stendur aldrei einn. Í öðru lagi verður hjartað að endurspegla kærleika/visku sálarinnar. Tilfinningalíkaminn (í dulfræðilegum skilningi ástand vatnsins) verður að vera lygn sem skógartjörn þar sem engar hræringar eiga sér stað og öll eigingirni er á bak og burt. Í þriðja lagi verður hugurinn að vera hreinn og alger friður að ríkja. Hann verður að vera það ljósker sálarinnar sem lýsir upp áform Guðs.

 

Framkvæmd dulfræðilegrar sköpunar er flókið ferli og krefst einbeitingar alls persónuleikans. Því má skipta í sex þrep:

 

Fyrsta þrep: Neminn kemur sér fyrir í ákveðnum hugleiðingarstellingum. Hann róar jarðlíkamann og kyrrir tilfinningalíkamann. Huglíkamanum er haldið glaðvakandi og hann undirbúinn fyrir hugarvinnuna sem framundan er.

 

Annað þrep: Neminn tengir sig inn á krafta sálarinnar með ákalli eða á þann hátt sem hann er vanur að gera. Góð aðferð er að nota Ákall aganemans, en það hljóðar svo:

 

            Vegurinn sem fætur mínir feta er lagður.

            Ég varðveiti frið í huga og kærleik í hjarta,

            því ég er sál sem svíf á vængjum til hæða.

 

Í ákallinu er bent á fjóra hluti er neminn verður að hafa á hreinu: 1. Neminn er sál í holdgun og stjórnast eingöngu af þeirri vissu. 2. Neminn gegnir ákveðinni lífsskyldu sem lögð er áður en persónuleikinn er skapaður og hann hefur engin áhrif á. Þessi lífsskylda hefur verið nefnd dharma. 3. Í tilfinningalíkamanum ríkir einungis kærleikur. 4. Alger friður ríkir í huglíkamanum, sem er upplýstur af andlegu ljósi. Myndrænt getum við séð þetta sem þríhyrning:

Mynd 4.3: Hugarform aganemans á meðan hann fer með Ákall aganemans.  

 

Nægjanlegt er að tengja sig inn á krafta sálarinnar vegna þess að hún, á sínu eigin sviði, sér um allar aðrar tengingar inn á við.

 

Þriðja þrep: Neminn myndar skýr hugarform af þeim hluta áformsins sem honum hefur verið birt. Þessum hugarformum, hvort sem neminn kallar þau fram í formi kyrrstæðrar myndar eða sem ferli atburða, er haldið skýrum.

 

Hjá þrautþjálfuðum aganema, með sterkt sálarsamband, rennur fyrsta, annað og þriðja þrep saman í eina heild. Án þess að tengja sig sérstaklega við sálina, því hann er svo til í stöðugu sambandi við hana, kallar hann fram hugarform sín af áforminu. Engrar sérstakrar hugleiðingarstellingar er þá þörf.

 

Fjórða þrep: Innöndun. Neminn dregur að sér krafta sálarinnar sem samræmir hugleiðingu sína hugleiðingu persónuleikans.

 

Fimmta þrep: Neminn heldur andardrættinum kyrrum. Öll skynjun hans er einbeitt í höfðinu. Hugarformum hans, af hans hluta áformsins, er haldið stöðugum.

 

Sjötta þrep: Útöndun. Neminn andar frá sér áforminu og á þessu þrepi er það viljinn sem er sterkasta aflið. Við útöndunina flytur neminn áformið frá huga sínum og inn í heilann, viðtæki jarðlíkamans. Á þennan hátt hefur nemanum ekki eingöngu tekist að virkja tvö af neðri hornum „sálarþríhyrningsins“, það er Kærleikur/Viska og Virkir vitsmunir, heldur hefur honum einnig tekist að virkja topp þríhyrningsins eða Vilja sálarinnar (og um leið vilja persónuleikans), sér og áforminu til framdráttar. Persónuleikinn hefur tekið tilboði sálarinnar um samstarf í heimunum þrem.

4.3 Leyndardómar ómsins

Í sjötta þrepi dulfræðilegrar sköpunar, Útöndun, er leyndardómur fólginn. Lausn gátunnar er fólgið í réttum svörum spurninganna: Hvað er ómað í útönduninni? Og hvernig er ómað, það er lengd og hæð ómsins?

 

Svarið við fyrri spurningunni er einfalt. Við útöndunina er notað helga orðið OM.

 

Svarið við síðari spurningunni er: Samruni persónuleika og sálar er samruni tveggja geisla til myndunar ákveðins tóns. Hæð tónsins ræðst af sálar- og persónuleikageisla mannsins. Neminn gengur úr skugga um á hvaða sálar- og persónuleikageisla hann er. Vegna þeirrar staðreyndar að persónuleikageislinn er geislagrein sálargeislans, er galdurinn sá að staðsetja sálargeislann og síðan persónuleikageislann innan hans. Kaflarnir Tölur og litir (kafli 4.4) og Tónar og litir (kafli 4.5) veita nánari fræðslu um þetta atriði. Lengd tónsins er lengd útöndunar nemans.

4.4 Tölur og litir

Í þessum kafla stíg ég fyrsta skrefið í áttina til útskýringar á því hvernig tónar og litir eru tengdir innbyrðis. Ég byrja á því að lýsa sambandi talna og lita, vegna þess að samband tóna og lita er stærðfræðilegt.

 

Talnakerfi okkar – tugakerfið – dregur nafn sitt og er byggt upp á tíu tölutáknum. Þetta eru tölutáknin 0,1,2,3,4,5,6,7,8 og 9. Grundvöll kerfisins má rekja til þess er menn fóru að nota fingur beggja handa sem stuðningstæki við talningu. Síðar meir festist tugakerfið í sessi og nú er svo komið að það er óhagganleg staðreynd í lífi hvers og eins. Með tölutáknunum tíu er hægt, eins og allir vita, að mynda allar hugsanlegar töluheildir.

 

Tugakerfið er þó ekki eina algilda talnakerfið sem hægt er að nota í umfjöllun á tölulegum stærðum. Hægt er að nota tölukerfi þar sem tölutáknin eru bæði færri og fleiri en tíu. Sem dæmi má nefna að „tölvumál“ (það talnakerfi sem notað er í tölvum), er nefnt tvíundakerfi. Þetta kerfi er þannig uppbyggt að einungis tölugildin 0 og 1 eru notuð. Með mismunandi samsetningu á þessum tveim tölugildum getum við, nákvæmlega eins og í tugakerfinu, fengið út allar hugsanlegar töluheildir.

 

Samkvæmt framansögðu er að sjálfsögðu hægt að notfæra sér talnakerfi sem byggir á sjö tölugildum. Ef við þróum þessa útfærslu nánar, sjáum við að þau tölugildi sem hér er um að ræða eru 0,1,2,3,4,5 og 6. Þetta talnakerfi nefnist sjöundakerfi. Í sjöundakerfinu, á sama hátt og í báðum hinum kerfunum, má hugsa sér uppröðun talnagildanna á alla mismunandi vegu. Þar af leiðandi gefur sjöundakerfið báðum hinum talnakerfunum ekkert eftir. Munurinn á milli tuga- og sjöundakerfisins er einungis fólginn í fækkun tölugildanna úr tíu í sjö. Grunnurinn er ekki lengur fingur beggja handa, heldur sjö eins og fjöldi geislanna sem mynduðust þegar Lógosinn skapaði sólkerfið okkar.

 

Tölfræðilegir eiginleikar sjöundakerfisins eru hinir sömu og tugakerfisins. Hægt er að framkvæma sömu reikniaðgerðirnar í báðum talnakerfunum, þar á meðal samlagningu, frádrátt, margföldun og deilingu. Sem dæmi má taka er talan 9 í tugakerfinu jafngild tölunni 12 í sjöundakerfinu (skrifað 12VII og lesið; einn, tveir). Tugakerfistalan 27 er á sama hátt jafngild tölunni 36VII. Ef tölurnar 25VII og 34VII eru lagðar saman, fæst summan 62VII. Á sama hátt fáum við út mismuninn 53VII ef við drögum töluna 13VII frá tölunni 66VII. Einnig fáum við út margfeldið 1131VII ef við margföldum tölurnar 32VII og 24VII.

 

Geislarnir sjö sem mynduðust við sköpun sólkerfisins endurspeglast í litum regnbogans. Þegar sólargeislinn brotnar í vatnsdropanum, endurspeglar hann ljóslitrófið, það er að segja geislana sjö. Frumlitina þrjá; rauðan, indígó og grænan og afleiddu litina fjóra; gulan, rauðgulan, ljósbláan og fjólubláan.

 

Á sama hátt og tónar eru mismunandi bylgjulengdir, þá birtast ljóslitir einnig sem bylgjulengdir. Það ljós sem mannlegt auga greinir liggur á bilinu 370nm í fjólubláu til 700nm í rauðu (1nm = 0,0000001 cm). Út frá þessari forsendu, kemur það í ljós að bylgjulengd fjólubláa ljóssins liggur á bilinu 370nm-425nm, bylgjulengd bláa ljóssins á bilinu 425nm-500nm, bylgjulengd græna ljóssins á bilinu 500nm-570nm, bylgjulengd gula ljóssins á bilinu 570nm-590nm, bylgjulengd rauðgula ljóssins á bilinu 590nm-620nm og bylgjulengd rauða ljóssins ábilinu 620nm – 700nm. Ljós indígógeislans er dimmblátt og ætti því að hafa bylgjulengdina á bilinu 425nm-450nm. Þessar upplýsingar gefa okkur þá niðurstöðu að litir regnbogans skiptast í ákveðna röð eftir bylgjulengdum. Fyrst er það fjólublátt, þá indígó, síðan blátt, grænt, gult, rauðgult og að lokum rautt.

 

Fyrr í greininni fjölluðum við um sjöundakerfið með sínum sjö tölutáknum. Ef við samræmum tölurnar sjö litum regnbogans, lítur samruninn út á eftirfarandi hátt: fjólublátt = 0, indígó = 1, blátt = 2, grænt = 3, gult = 4, rauðgult = 5 og rautt = 6. Eðlilegast er að byrja röðunina á fjólubláum þar sem hann hefur stystu bylgjulengd ljóssins.

 

Samkvæmt þessari uppröðun tengjum við litina við tölurnar sem fyrr voru nefndir í greininni. Talan 12VII = (einn, tveir – indígó, blátt), 36VII = (þrír, sex – grænt, rautt), 25VII = (tveir, fimm – blátt, rauðgult), 34VII = (þrír, fjórir – grænt, gult), 62VII = (sex, tveir – rautt, blátt), 13VII = (einn, þrír – indígó, grænt), 66VII = (sex, sex – rautt, rautt), 53VII = (fimm, þrír – rauðgult, grænt), 32VII = (þrír, tveir – grænt, blátt), 24 VII = (tveir, fjórir – blátt, gult) og 1131VII = (einn, einn, þrír, einn – indígó, indígó, grænt, indígó).

4.5 Tónar og litir

Í þessum kafla sýni ég samsvörun milli tóna og lita. Stærðfræðin sem notuð er er sjöundakerfið. Litirnir sem notaðir eru sjö geislalitir ljóssins og hljóðið sem notað er eru fjörutíu og níu tónar áttundanna sjö. Tónfræðileg undirstaða eru sjö áttundir tónstigans frá A,, súbkontra áttundar til og með g´´´´ fjórstrikuðu áttundarinnar. Röðunin samsvarar uppröðun hvítu nótna píanóborðsins, það er C-dúr nótnanna.

 

Samkvæmt uppröðun lita og talna, er rökréttast að tengja fjólubláa litinn fjórstrikuðu áttundinni, indígó litinn þrístrikuðu áttundinni og þannig koll af kolli þar til að lokum að rauði liturinn tengist kontraáttundinni. Samruninn yrði þá á eftirfarandi hátt: Fjólublátt = 0 = fjórstrikuð áttund. indígó = 1 = þrístrikuð áttund. Blátt = 2 = tvístrikuð áttund. Grænt = 3 = einstrikuð áttund. Gult = 4 = lítil áttund. Rauðgult = 5 = stór áttund. Rautt = 6 = kontraáttund. Á sama hátt er uppröðun einstakra nótna innan hverrar áttundar þannig; c, d, e, f, g, a og h. Í okkar uppröðun virkar þetta á þann hátt að a = rautt = 6, h = rauðgult = 5, c = gult = 4, d = grænt = 3, e = blátt = 2, f = indígó = 1 og g = fjólublátt = 0 (athugið hliðrunina í uppröðun lita, nótna og áttunda). Hver tónn er byggður upp af tveimur frumlitum og tveimur tölutáknum. Dæmi: Nótan f´ í einstrikaðri áttund. Í okkar kerfi getum við ritað hana sem tölur; 31VII (þrír, einn) eða sem liti; grænt, indígó. Á sama hátt er c´´´ í þrístrikaðri áttund jafnt 14VII (einn, fjórir), eða sem litir; indígó, gult.

 

Tafla 4.1: Sameining tóna, lita og talna sjöundakerfisins.

Fyrr í greininni töluðum við um nauðsyn þess að finna út hæð og lengd tónsins við ómun á helga orðinu OM. Niðurstaðan sem við komumst að var sú að neminn þyrfti að finna bæði sálar- og persónuleikageisla sinn, sameina þá og fá út eina heild, einn sérstakan tón.

 

Út frá framangreindum upplýsingum, ætti þetta ferli nú að vera auðvelt. Taka verður fram að neminn verður að finna geisla sína áður en af stað er haldið. Segjum svo að neminn telji sig vita bæði sálar- og persónuleikageisla sinn. Neminn álítur sálargeislann vera bláa geislann og persónuleikageislann þann rauða. Eftirleikurinn er nú auðveldur. Neminn ákvarðar fyrst bláu áttundina. Síðan ákvarðar hann rauðu nótuna innan áttundarinnar. Útkoman er 26VII = blátt, rautt. Neminn hefur nú fundið tóninn a´ í einstrikuðu áttundinni (440Hz). Þetta er sá tónn sem neminn notar.

4.6 Dæmi um dulfræðilega sköpun

Eftirfarandi kafli er dæmi frá eigin reynslu. Dæmið sýnir vinnubrögð við dulfræðilega sköpun og um leið glögglega hvernig viljaþáttur sálarinnar er virkjaður.

 

Við byrjum þar sem mér hefur verið fengið í hendur hluti minn af áætlun hópsins. Áætlunin er á því stigi að vitneskjan er orðin rótföst bæði í hug- og tilfinningalíkama persónuleikans. Val mitt, sem sálar, í áætluninni er einungis fólgið í því á hvaða hátt framkvæmt er, vegna þess að sjálf framkvæmdin er þegar ákveðin. Val mitt sem persónuleika í áætluninni er hins vegar ekkert. Valið, ef val skyldi kalla, er jáyrði mitt við tilmælum sálarinnar um samstarf. Þetta jáyrði gef ég með framkvæmd dulfræðilegrar sköpunar. Sú vitneskja sem ég hef fengið um áætlun mína innan hópsins er fjórþætt:

 

  1. Að sýna fram á að talnavísindin eru vísindi lita.
  2. Að sýna fram á að litir og tónar í ákveðnu samspili geti stuðlað að lækningu á meinsemdum persónuleikans.
  1. Að leggja undirstöður að Nýjaldarlæknisfræði:   a) Með því að kynna nýja flokkunarfræði sjúkdóma, tjáða í töluformi, sem sýnir þann lit sem bestur er hæfur til lækninga.   b) Með því að semja tónlist sem best er fallin til þess að ráða bót á ákveðnum sjúkdómum.
  1. Að lýsa í riti þjónustuhlutverki og þjónustu sálar á einu lífsskeiði.

Ég hef vinnu mína með því að skipuleggja og undirbúa mig undir starfið. Ég reyni að tímasetja þessa fjóra þætti áformsins (sem er í raun blekking, vegna þess að þeir eru þegar lagðir á innri sviðum) með það fyrir augum að skipuleggja önnur störf mín á jarðsviðinu í samræmi við það. Allur þessi undirbúningur (sem er í raun fyrsta stig hugleiðingar) hefur aðeins eitt markmið og það er innbyrðis tenging persónuleikans og samtenging hans við sálina. Dæmið sem ég tek fyrir um dulfræðilega sköpun er fyrri hluti þriðja liðar áætlunar minnar, það er að leggja undirstöður að Nýjaldarlæknisfræði. Hlutverk mitt er að birta þá vitneskju sem síast hefur inn í huglíkama minn.

 

Skref 1:  Ég hugleiði bestu framsetningu á þessu efni, en ég hef á undanförnum árum fengið vitneskju í huglíkama minn um hvernig ný flokkunarfræði sjúkdóma lítur út (sjá hafstein.org). Ég mynda skýr hugarform af áætlun minni. Á þessu stigi er ég tengdur sálarkröftum mínum, því þar liggur vitneskjan um framkvæmdina. Þegar persónuleikinn „finnur lausn“ málanna, er það vegna upplýsingastreymis frá sálinni. Þetta undirstrikar nauðsyn þess að hefja starfið á sterkri tengingu persónuleika og sálar.

 

Skref 2:  Ég dreg að mér krafta sálar minnar í innönduninni og samræmi hugleiðingu persónuleikans hugleiðingu sálarinnar.

 

Skref 3:  Á því augnabliki þegar innöndun er lokið og andardrættinum er haldið stöðugum, varpa ég áforminu á „veggi“ huglíkamans og þannig stendur það ljóslifandi fyrir hugskoti mínu. Ég beitir allri orku minni í að halda hugarforminu stöðugu og á sama tíma miða ég því að ennisstöðinni, þriðja auganu, sæti sálarinnar. Ennisstöðin verður eitt „eldhaf“. Sú tilfinning sem ég verð var við í orkustöðinni er svipuð brennandi eldsloga.

 

Skref 4:  Alla útöndunina held ég hugarforminu stöðugu og kvika aldrei frá því. Samtímis óma ég tón minn, bæði í réttri hæð og lengd. Gífurleg áreynsla er fólgin í þessari framkvæmd.

 

Á þennan hátt hefur mér tekist að senda áformið inn í heila minn (inn í efnisheiminn), þar sem það bíður framkvæmdar. Virkjaði vilji sálarinnar sér til þess að framkvæmdin gerist á réttum tíma.

4.7 Niðurlag

Í þessum kafla tek ég fyrir þrjú atriði:

 

Í fyrsta lagi: Mig langar aðeins að reifa þann mun sem er á milli „venjulegrar“ sköpunar og dulfræðilegrar sköpunar. Munurinn er í sjálfu sér ekki ýkja mikill, hann er einungis fólginn í því að í dulfræðilegri sköpun tekur persónuleikinn meðvitað þátt í sköpunarferlinum, frá fyrstu hugleiðingu til lokaframkvæmda á jarðsviðinu. Auk þess sem sköpunin er liður í Áætlun Guðs.

 

Í öðru lagi: Tenging persónuleika og sálar er yoga og hefur að meira eða minna leiti verið kennt leitendum og nemum gegnum tíðina, auk þess sem fjöldi rita hefur verið skráður um þessi vísindi. Yoga hefur það að markmiði að kenna nemanum að lifa í núinu. Það að lifa í núinu er það ástand að sætta sig við þá atburði sem gerast í lífinu eða dharma okkar. Þetta þýðir það að við verðum að gera okkur grein fyrir frjálsum vilja okkar. Hugur og hjarta renna saman í einn farveg í lífi handarinnar og við gerum okkur grein fyrir stjórnun sálarinnar á þessum farvegi. Sálin leggur síðan veginn eftir árangri huga okkar og hjarta þ. e. okkar frjálsa vilja í okkar fyrri jarðvistum.

 

Í þriðja lagi: Að starfa sem sál er þjónusta (dulfræðileg sköpun) og hefur það að markmiði að kenna nemanum að taka þátt í framtíðinni. Þjónusta er aðferð dulfræðilegrar sköpunar og nýr kennsluþáttur innan dulfræðinnar, nú í fyrsta skipti kynntur í riti fyrir almenning. Þessi þáttur hefur þó ávallt verið kenndur innan dulfræðinnar, en aðeins þeim sem eru dulvígðir og þar af leiðandi bundnir þagnareið.

 

Ef við orðum þetta á annan hátt þá hafa kennarar hinna dulrænu fræða, frá ómunatíð, lagt áherslu á að kynna þætti sálarinnar Virka vitsmunir og Kærleikur/Viska. Sálarþættinum Kærleikur/viska var gerð skil af aganemanum Jesú frá Nazaret fyrir um tvö þúsund árum síðan.

 

Við innkomu sjöunda geislans og Nýaldar, oft nefnd Vatnsberaöldin, hefur Heimskennarinn lagt þunga áherslu á að kynna Viljaþátt sálarinnar og hvernig vilji sálarinnar er virkjaður. Með því að birta aðferð dulfræðilegrar sköpunar í riti fyrir almenning, er stigið eitt skref í þessa átt.

 

Við þessa nýbreytni megum við eiga von á að Áform Guðs skýrist og að fleiri taki meðvitað þátt í að flytja vilja Guðs niður á jarðsviðið. Þetta gæti þýtt að markmið og einbeittur vilji allra aganema styrkist og að „úrfellið“ úr huga Guðs þéttist.

Tilvitnanir

1 Bhagavad Gita. XV, Ókunnur höfundur.

2 P. Hafstein. 1990: Hinn fullkomni maður og frjáls vilji. Í Gangleri Haust 1990, s. 84–94. Reykjavík, Guðspekifélag Íslands.

3 Bhagavad Gita, XII. Ókunnur höfundur.

4 S. Thorsteinsson. 1958: Ljóðmæli. Reykjavík: Leiftur. (Úr Lífshvöt, s. 90-93).

5 Bhagavad Gita. XII. Ókunnur höfundur.

6 The Geneva Bible. Ljósrit af útgáfu frá 1606. Jóhannesarguðspjall. Kafli 1, vers. 1-4, s. 1037. London, England: Robert Barker. <https://archive.org/details/ost-english-bible00lond/page/n5>.